Pétur Bergþór Arason er sérfræðingur í stjórnun hjá Manino og hefur auk þess kennt stjórnun við HR. Pétur segir að stjórnun fyrirtækja standi á tímamótum; ríkjandi stjórnunaraðferðir í dag hafi mikið til verið fundnar upp fyrir rúmri öld við allt aðrar aðstæður og margar þeirra henti einfaldlega ekki í heimi veldisvaxandi tækniþróunar. Mikil áhersla sé lögð á nýsköpun í vöruþróun í dag, en nýsköpun í stjórnun sé ábótavant.

Fundnar upp fyrir fjöldaframleiðslu iðnbyltingarinnar
Pétur segir stjórnunaraðferðirnar sem almennt séu notaðar í dag í raun yfir aldargamlar. „Þær voru fundnar upp í byrjun síðustu aldar sem svar við ákallinu sem var þá, að búa til fjöldaframeiðslu í kjölfar iðnbyltingarinnar. Þær aðferðir virkuðu, og í raun og veru virkuðu mjög vel, fyrir þær aðstæður sem þær voru fundnar upp í, en þessar aðferðir voru fundnar upp af fólki sem var kannski fætt í kringum 1850.“

Nú sé hins vegar öldin önnur. „Aðstæður í dag eru allt öðruvísi, fyrirtæki eru í allt öðruvísi samkeppnisumhverfi að keppa á allt öðruvísi mörkuðum. Það er allt öðruvísi tækni í gangi, við höfum þróast mikið og erum að gera allt öðruvísi hluti í dag heldur en þá. Tæknibreytingarnar hafa aldrei verið jafn hraðar og núna, það er veldisvöxtur á þeim. Eins og einhver sagði: tæknin er að breytast hraðar en breytingarnar sjálfar. Við náum ekki einu sinni að fylgjast með. Þetta er ekki það sem var að gerast þegar stjórnunaraðferðirnar voru fundnar upp þarna í upphafi 20. aldar.“

Eitt dæmi um arfleifð þessara gamalgrónu stjórnunaraðferða segir hann vera ofuráherslu á stærðarhagkvæmni. Hún sé auðvitað góð og gild í sjálfu sér, en hana þurfi þó að meta í víðara samhengi en stundum er gert. „Við erum að vakna upp við það í dag að ein af afleiðingunum af þessu öllu er þessi sóun sem við sjáum í kringum okkur. Matarsóun, fatasóun, orkusóun eða hvað það er; ofneysla er svolítið afsprengi þessara aðferða sem voru fundnar upp á þessum tíma. Það að geta framleitt mikið af mat er kannski ágætt í sjálfu sér, en ef þú ert að henda 40% af matvælunum þá þarf að staldra við og hugsa: hvað er það sem við erum að gera vitlaust?“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .