Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri fyrir mig en á síðustu árum hef ég aðallega unnið við almannatengsl og línan þarna á milli er mjög þunn. Það þarf að vera samhljómur í því sem fyrirtæki sendir frá sér, hvort sem það sé í markaðsstarfi eða því sem stjórnendur fyrirtækisins eru að segja,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir sem á næstu vikum tekur við sem markaðsstjóri Vátryggingafélags Íslands.

„Minn bakgrunnur er aðallega úr fjölmiðlum, ég vann í 17 ár á Stöð 2 og forverum þess fyrirtækis, en undir restina var ég nánast eingöngu í viðskiptafréttum.“

Guðný Helga er með B.S. gráðu í viðskiptafræði og meistaragráðu í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. „Það er mín trú að flest ungt fólk ætti að prófa að búa erlendis ef það hefur tækifæri til,“ segir Guðný Helga sem segir reynsluna víkka sjóndeildarhringinn þó að Danmörk sé nú ekki framandi menning.

„Alls ekki, en þeir eru ekki jafn „spontant“ og Íslendingar. Það var auðvitað skrýtið að vera kannski boðið í veislu í viku 34 í byrjun árs og svo var maður auðvitað löngu búinn að gleyma þessu og það passaði okkur ekki alveg þegar loks kom að þessu. Við Íslendingarnir féllum ekki alveg inn í þennan ramma.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .