Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, hefur hætt við að lækka tekjuskatt í efsta skattþrepinu eftir gagnrýni frá þingmönnum Íhaldsflokksins. Í umfjöllun Financial Times segir að þetta sé niðurlægjandi U-beygja hjá Truss sem hafði síðast í gær ítrekað að áformin myndu fara í gegn.

Truss komst hins vegar að þeirri niðurstöðu eftir fundarhöld með ráðgjöfum sínum að litlar líkur væru á að afnám hátekjuskattsins kæmist í gegnum þingið.

Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands, staðfesti í morgun að ríkisstjórnin væri hætt við áform, sem kynnt voru fyrir tveimur vikum, um að lækka 45% tekjuskattinn í efsta skattþrepinu sem nær til tekna yfir 150 þúsund punda, eða sem nemur 24 milljónum króna.

Í yfirlýsingu sagði Kwarteng að afnám 45% hátekjuskattsins hafi sett forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í uppnám.

Gengi breska pundsins gagnvart íslensku krónunni hefur styrkst um meira en 1% gagnvart í morgun og stendur nú í 160,7 krónum.