Tómum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um 368 á milli ára samkvæmt nýlegri talningu Samtaka iðnaðarins. Í umfjöllun í Morgunblaðinu er haft eftir Jóni Bjarna Gunnarssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra SI, og Friðriki Ágústi Ólafssyni, forstöðumanni hjá samtökunum, að þetta sé til marks um að þörf sé að myndast á byggingu nýs íbúðarhúsnæðis.

Þá sé einkum um að ræða ódýrari og smærri íbúðir fyrir þá sem hyggjast kaupa húsnæði í fyrsta skipti. Eðlileg þörf markaðarins sé að 1.500-2.000 íbúðir séu byggðar árlega en auk þess sé uppsöfnuð þörf þar sem húsnæði hafi lítið hreyfst eftir hrun. Sveitarfélögin þurfi einnig að taka þátt í þessu með lækkun lóðaverðs til samræmis við minnkandi eftirspurn auk þess að lækka ýmis gjöld sem tengjast húsbyggingum. Þá geti verktakar lagt sitt að mörkum með bættri gæðastjórnun sem myndi vinna á byggingarkostnaði.