Lág ávöxtunarkrafa á löngum skuldabréfum þarf ekki að tákna yfirvofandi samdrátt heldur getur hún endurspeglað traust fjárfesta á hagkerfinu sem og trú á að verðbólga haldist stöðug, segir Ben Bernanke, hinn nýi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, í ávarpi á Wall Street í gær.

Þetta kemur fram í frétt frá greiningardeild Landsbankans. Bernanke benti þó á að seðlabankinn geti ekki treyst eingöngu á þessa einu stærð við ákvörðun stýrivaxta.

Ræða Bernanke hafði lítil áhrif á væntingar markaðsaðila til hækkana stýrivaxta á næstunni en fastlega er gert ráð fyrir að þeir verði hækkaðir um 25 punkta í 4,75% í lok mánaðarins og síðan í 5% í maí.