Auglýsinga- og markaðsráðgjafastofan H:N Markaðssamskipti fékk á dögunum Lúðurinn fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins 2013. Það var auglýsingaherferðin „Betri en þú“ sem var gerð fyrir markaðsráð kindakjöts. Auglýsingin var líka tilnefnd sem auglýsingaherferð ársins og er það í fyrsta skiptið sem sama auglýsingin er tilefnd í báðum þessum flokkum. Ingvi Jökull Logason er eigandi H:N Markaðssamskipta. Hann segir að H:N hafi verið stofnað árið 1990 og sé því með elstu auglýsingastofum landsins.

Hann segir að verðlaunin fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina séu auglýsingastofunni mjög mikilvæg enda hafi hún unnið til gullverðlauna í fimm skipti af sex sem verðlaunin hafi verið veitt.

„Við höfum lagt mikla áherslu á árangurstengda nálgun í auglýsingum og höfum haft nokkra sérstöðu á markaðnum að því leyti, leyfi ég mér að segja,“ segir Ingvi Jökull. „Í gegnum tíðina hefur verið leitað til okkar með ýmis átaksverkefni – bæði lítil og stór,“ segir Ingi Jökull.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .