Nokkur uggur er í framleiðendum loðdýraskinna fyrir nýtt sölutímabil sem hefst nú í desember. Er það fyrst og fremst vegna lágrar stöðu dollars en hann er viðmiðunargjaldmiðill í kaupunum þó að uppboðin fari fram í Danmörku. Fyrstu söluuppboð nýs sölutímabils verða 14. 15. og 16. desember næstkomandi.

Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Einar S. Einarsson, loðdýraræktarráðunaut, og segir hann að ekki sé að vænta neinna breytinga á eftirspurn eftir skinnum af hálfu tískuheimsins. Þar er gert ráð fyrir jafn mikilli eftirspurn og í fyrra. "Það er hins vegar staða dollarsins sem hræðir menn enda er ekki að vænta breytinga á verði skinnanna í dollurum talið," sagði Einar en lækkun í dollurum talið þýðir lækkun á verði skinnanna til bænda. . Einar sagðist gera ráð fyrir svipuðu framboði skinna frá Íslandi og í fyrra og þá bæði í framboði minnka- og refaskinna. Einar benti hins vegar á að þróunin í greininni væri sú að menn væru að hætta í refarækt enda hefði hún lítið gefið af sér undanfarin ár. Refabændum hefur því fækkað með hverju ári og nú munu í það minnsta tveir refabændur ætla að snúa sér að minnkaræktun.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.