Nokkur afar lág tilboð bárust í útboði Vegagerðarinnar vegna nýbyggingar 14,6 kílómetra Suðurstrandarvegar á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurvegar.

Alls buðu 15 verktakafyrirtæki í verkið og buðu öll nema eitt undir kostnaðaráætlun. Átti Háfell ehf. lægsta tilboðið upp á tæplega 179 milljónir króna eða aðeins 41.3% af kostnaðaráætlun, sem nam 433 milljónum króna. Verkinu á að ljúka 15. september 2012.

Suðurverk hf. átti næstlægsta boð eða 56% af kostnaðaráætlun og Ingileifur Jónsson ehf. var með 59,9%. Fjórða lægsta boð, sem var 61,5% af kostnaðaráætlun, kom frá KNH ehf. á Ísafirði sem er nú að vinna við austurhluta Suðurstrandarvegar.