Sú hefð hefur skapast við útreikning á verði íbúðabréfa að miðað er við dagvísitölu til verðtryggingar, að sögn greiningardeildar Landsbankans sem segir að útreikningur dagvísitölunnar fer eftir því hvort að vísitala neysluverðs í mánuðinum liggur fyrir eða ekki.

?Eftir að Hagstofan hefur birt vísitölu mánaðarins er hún notuð í hlutfalli við liðinn dagafjölda í mánuðinum. Áður en mælingin liggur fyrir í kringum 10. dag mánaðarins er notast við nýjustu verðbólguspá Seðlabankans. Ef að nýjasta spá Seðlabankans er töluvert undir mældri verðbólgu, líkt og nú er, þá leiðir þetta til þess að ávöxtunarkrafa íbúðabréfanna helst lægri en ella þar til að mæld verðvísitala í mánuðinum liggur fyrir. Áfallnar verðbætur hækka verulega þegar að skipt er úr lágri spá í háa mælingu og það hefur áhrif á ávöxtunarkröfuna líkt og sást nú í júní," segir greiningardeildin.

Hún segir að almennt sé verðbólguspá Seðlabankans einn ársfjórðung fram í tímann nokkuð nærri lagi og því hefur það ekki mikil áhrif þegar að verðmæling Hagstofunnar er birt.

?Þegar að spá Seðlabankans er orðin langt undir mældri verðbólgu líkt og nú þá hefur þessi reikniaðferð greinileg áhrif á vaxtamyndun á markaði. Það má því segja að verðbólguspá Seðlabankans geti haldið niðri vöxtum verðtryggra skuldabréfa til skamms tíma ef að hún er of lág. Það er því afar mikilvægt fyrir Seðlabankann að spá oft, en spám bankans var fækkað úr fjórum í þrjár á ári um síðustu áramót," segir greiningardeildin.

Hún bendir á að reikniaðferð sem að notuð er við verðtrygginguna, þ.e. að breyta um viðmið innan mánaðarins, leiðir til þess að sveiflur í ávöxtunarkröfu á markaði verða meiri en ella.

?Ávöxtunarkrafa á eftirmarkaði með verðtryggð bréf sveiflast til að mynda mun minna í Bretlandi þar sem að verðtrygging ríkisskuldabréfa miðast við vísitölugildi frá því fyrir þremur mánuðum, en ekki vísitölu síðastliðins mánaðar líkt og hér. Þannig liggur alltaf fyrir í Bretlandi hverju verðtryggingarþátturinn skilar næstu þrjá mánuði," segir greiningardeildin.

Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur eitthvað hækkað undanfarna daga. ?Krafan á HFF14 hefur hækkað um 30 punkta og HFF24 um 17 punkta frá því að Hagstofan birti vísitölu neysluverðs þann 12. júní. Þetta var fjórði mánuðurinn í röð sem að vísitalan hækkar um meira en 1%," segir greiningardeildin.