Ef skoðuð eru V/H hlutföll einstakra félaga þá kemur berlega í ljós að hlutföllin eru hvað lægst hjá fjármálafyrirtækjunum segir í Afkomuspá greiningardeildar Landsbankans. Þannig voru fjármálafyrirtækin með fimm af sjö lægstu hlutföllunum á síðasta ári og á þessu ári spá þeir að þau verði á meðal átta lægstu.

Fjögur fjármálafyrirtæki voru á meðal þeirra fimm fyrirtækja sem voru með lægstu V/H hlutföllin í fyrra. Þau voru Burðarás (7,1), Straumur (8,1), TM (10,4) og Íslandsbanki (11) en lág hlutföll þeirra skýrast af miklum gengishagnaði vegna hækkana á hlutabréfamarkaði. FL Group var með næst lægsta V/H hlutfallið fyrir síðasta ár eða 7,3. Lágt hlutfall hjá FL Group er m.a. tilkomið vegna töluverðs hagnaðar af hlutabréfum en stærstu eignir í hlutabréfum eru easyJet og Kaupþing banki segir í afkomuspá

"Hæst var V/H hlutfallið hjá Bakkavör (28,4) og Og fjarskiptum
(27,2) á síðasta ári en töluvert miklar breytingar urðu á Og fjarskiptum þegar það keypti ÍÚ og Frétt. Við áætlum því að hagnaður Og fjarskipta aukist um 100% á milli ára og því er vænt V/H hlutfall fyrir 2005 mun lægra eða 21,4.

Ef horft er á vænt V/H hlutföll hjá félögunum þá er það sama upp á teningnum og fyrir síðasta ár, þ.e. fjármálafyrirtækin eru með áberandi lág hlutföll og meðal þeirra allra lægstu. Hæstu hlutföllin eru hins vegar áætluð hjá SÍF, Bakkavör og Granda. Hjá SÍF er hlutfallið áætlað 58,8 en þetta háa hlutfall skýrist af því að afkoma þriðja og fjórða ársfjórðungs síðasta árs var slök en þeir eru meðtaldir í ársuppgjöri SÍF fyrir 2005 vegna breytts uppgjörstímabils. V/H hlutfallið hjá Bakkavör hækkar úr 28,4 í 38,6 á milli ára sem skýrist m.a. af því að Geest kemur ekki inn í samstæðuuppgjörið fyrr en í byrjun maí en ef það væri inni fyrir allt árið þá yrði V/H hlutfallið að sjálfsögðu mun lægra," segir í afkomuspá Landsbankans.