Lagabreytingu þarf til þess að Íbúðalánasjóður geti boðið viðskiptavinum sínum svipaða niðurfærslu lána og Landsbankinn tilkynnti um í síðustu viku. Þetta segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, í samtali við Morgunblaðið og vísar til þess bókstafs laganna að sjóðnum beri að miða við annað hvort fasteignamat eða markaðsvirði, þá tölu sem er hærri hverju sinni.

Sigurður segist hafa rætt málið við stjórnvöld og tekur jafnframt undir þau orð Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, að litlar forsendur séu fyrir rekstri sjóðsins nema hann geti mætt því sem aðrir aðilar á markaði gera. ÍLS verði þó að fara algjörlega að lögum og þeim verði ekki breytt nema pólitískur vilji sé til staðar.

Hann segir aðgerðir Landsbankans fagnaðarefni en þó skjóti það skökku við að þær séu eingöngu þeim til handa sem ekki eru komnir í 90 daga vanskil enda séu það þeir sem þurfi mest á aðgerðum að halda. Vegna félagslegs hlutverks ÍLS sé það langsóttara fyrir sjóðinn að skilyrða aðgerðir með þessum hætti.