Tvö mál féllu í Héraðsdómi Reykjaness annars vegar og Héraðsdómi Reykjavíkur hins vegar í síðustu viku sem snúa að lögmæti innheimtu vaxta af yfirdráttarlánum. Í máli sem Íslandsbanki höfðaði til innheimtu yfirdráttarskuldar fyrir Héraðsdómi Reykjaness var kveðið á um að bankanum hefði verið óheimilt að innheimta vexti af láninu. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að aðilinn sem bankinn stefndi skyldi vera sýknaður af kröfum bankans á grundvelli skuldajafnaðar þar sem aðilinn á rétt á endurgreiðslu vaxta og annars kostnaðar þar sem enginn samningur um innheimtu vaxta og kostnaðar lá fyrir.

Í hinu málinu féll dómur Landsbankanum í vil. Þar var málsástæðum stefna hafnað þar sem hann hefði aldrei gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu bankans og með því hefði hann sýnt af sér verulegt tómlæti og glatað réttindum sem hann kynni mögulega að hafa átt á hendur stefnanda.

Bragi Dór Hafþórsson, lögmaður viðskiptavinar Íslandsbanka, segir að ef Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms á svipuðum forsendum þá geti málið haft víðtækar afleiðingar. Hann segir ástæðu þess að dómstólarnir dæmi á mismunandi hátt í þessum tveimur málum ráðast af því að dómstólar dæmi ekki eftir öðru en málatilbúnaði aðila. Í hinu málinu virðist sem ekki hafi verið byggt á því að neytendavernd Evrópuréttar feli í sér að ekki verði litið svo á að neytandi hafi gerst sekur um tómlæti þegar snýr að viðskiptum hans við fjármálafyrirtæki. Þá hafi heldur ekki verið byggt á því að samkvæmt ákvæðum fyrningarlaga mætti skuldajafna fyrndri kröfu gegn annarri af sömu rót og því ætti hið sama að eiga við um kröfu sem gæti verið fallin niður vegna tómlætis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .