Hátt á þriðja hundrað norrænna laganema, lögfræðinga, lögmanna og dómara  verður  hér á landi helgina 12.-14. júní  til að taka þátt í Norrænu málflutningskeppninni (Nordiska Rättegångstävlingen om de Mänskliga Rättigheterna).

Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands en aldarfjórðungur er síðan keppnin var fyrst haldin í Stokkhólmi og tuttugu ár síðan hún var fyrst haldin hér á landi.

Lið Club Lögberg keppir fyrir hönd lagadeildar Háskóla Íslands en Guðmundur Óli Björgvinsson hrl. og lögmaður hjá Lagastoð lögfræðiþjónustu ehf. fer með formennsku í málflutningsklúbbnum. Liðið er skipað sjö laganemum, sem æft hafa stíft síðustu vikur og mánuði undir leiðsögn Kristínar Benediktsdóttur hdl., stundakennara og doktorsnema við deildina. Hún hefur jafnframt yfirumsjón með skipulagningu keppninnar hér á landi.

Keppnin fer fram á dönsku, norsku eða sænsku  og hafa íslensku keppendurnir þurft að bursta rykið af dönskukunnáttunni. Dómarar  í keppninni starfa við Mannréttindadómstól Evrópu og  eins eru hæstaréttardómarar frá öllum Norðurlöndunum auk dómara frá EB-dómstólnum.

Keppnin fer þannig fram að liðin fengu í febrúar senda málsatvikalýsingu sem snýst um ætluð brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Að þessu sinni gerist hið ímyndaða mál á Íslandi og varðar réttinn til lífs og rétt manna til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðrum Evrópulöndum á kostnað ríkisins. Er liðunum skipt í sóknir og varnir og reynir hvert lið að gera málstað sinn sem mestan.

Sjá nánar á vef HÍ.