Rammi laganna gerir ráð fyrir að menn geti fengið allt að tveggja ára fangelsi fyrir brot á lögum um lax- og silungsveiði en algengt er að menn fái sektir upp á 10 til 30 þúsund krónur. Í lögum um lax- og silungsveiði kemur fram að refsingar við brotum nema sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í lögunum er meðal annars kveðið skýrt á um að brot teljist fullframin jafnskjótt og veiðarfæri er komið að veiðistað. Undanfarna mánuði hafa tvö dæmi komið upp þar sem menn hafa verið staðnir að því sem hefur verið kallað veiðiþjófnaður í almennri umræðu.

Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir þó nokkur tilvik hafa komið upp á síðustu árum þar sem löggjöf um lax- og silungsveiði hafi verið brotin.

„Það má segja að áður fyrr hafi verið mjög erfitt að fá dómsvaldið til að taka á þessum málum. Nú er allt eftirlit orðið markvissara. Málum er þá vísað til ákæruvaldsins. Eigi að síður verður það að segjast alveg eins og er að það gengur mjög misjafnlega og oft erfiðlega að fá sakfellingu í svona málum. Það er bara mikið áhyggjuefni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .