Evrópskir kjósendur og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru á öndverðum meiði. Þetta kemur fram á fréttavef Bloomberg í dag.

Þar er fjallað um þau ólíku skilaboð sem kjósendur annars vegar og Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, hins vegar senda Evrópu í dag.

Lagarde sagði í ræðu í Háskólanum í Zurich í morgun að valið stæði ekki á milli sparnaðar og hagvaxtar. Hægt væri að beita efnahagsstefnu sem væri bæði góð í dag og á morgun. Lagarde lagði áherslu á bætt yrði úr efnahagsástandinu á eðlilegum og viðráðanlegum hraða. Hún biðlaði til Evrópulanda að sætta sig við nauðsynlegar niðurskurðaraðgerðir. Lagarde lagði þó áherslu á að niðurskurður ætti ekki að vera of skarpur enda gæti það haft letjandi áhrif á hagkerfi Evrópu. Finna þyrfti jafnvægi og leiðrétta þannig ástandið smám saman.

Margir hafa túlkað stjórnmálaþróun í Evrópu sem harðan dóm kjósenda á þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið í Evrópu, jafnt af ríkisstjórnum, Evrópusambandinu og stofnunum líkt og AGS. Sem dæmi er bent á sigur Hollande á Sarkozy í kosningunum í Frakklandi í gær. Hollande hefur sagst ætla að draga úr sparnaðaraðgerðum en á sama tíma auka hagvöxt. Þá hafa bæði Spánn og Ítalía látið undan pólitískum þrýstingi og dregið úr sparnaðaraðgerðum. Ríkisstjórn Hollands féll í síðasta mánuði eftir tilraun til að auka niðurskurð og svipaða sögu má segja um Grikkland.