Christine Lagarde hefur verið skipuð bankastjóri evrópska seðlabankans en þetta lá fyrir í gær eftir að leiðtogar Evrópusambandsins komu sér saman um hverjir ættu að taka við æðstu embættum sambandsins eftir stíf fundarhöld síðustu daga. Lagarde sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er skipuð til næstu fimm ára og tekur við af Mario Draghi sem gengt hefur starfi seðlabankastjóra síðustu átta ár.

Í frétt Financial Times kemur fram tilnefning Lagarde hafi verið nokkuð óvænt, sérstaklega þar sem hún er menntaður lögfræðingur en ekki hagfræðingur. Þó hún kæmist varla í gegn um skilyrði hæfnisnefndar hér á Íslandi má þó geta þess að verðandi starfsbróðir hennar vestanhafs, Jerome Powell er einnig lögfræðingur. Lagarde er hins vegar eitt stærsta nafnið í alþjóðafjármálageiranum eftir að hafa gengt starfi framkvæmdastjóra AGS í átta ár auk þess að hafa verið fjármálaráðherra Frakklands í fjögur ár.

Þá var Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands tilnefnd sem næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, fyrst kvenna. Hún mun taka við af hinum lúxemborgska, Jean-Claude Junker.