*

sunnudagur, 26. september 2021
Erlent 11. mars 2020 14:39

Lagarde varar við nýju hruni

Seðlabankastjóri Evrópu segir efnahagsleg áhrif kórónaveirunnar geta orðið álíka og af bankahruninu 2008.

Ritstjórn
Christine Lagarde var áður framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en tók við sem bankastjóri Seðlabanka Evrópu í haust.

Bankastjóri evrópska seðlabankans segir efnhagsleg áhrif kórónaveirunnar Covid 19 frá Wuhan í Kína geti orðið á par við áhrif bankahrunsins 2008. Christine Lagarde, sem tók við stöðunni í nóvember á síðasta ári, hvatti ríkisstjórnir ESB ríkjanna til að grípa til aðgerða og auka útgjöld á símafundi með leiðtogum ríkjanna í gærkvöldi.

Þar er hún sögð hafa varað við að Evrópa geti annars verið í hættu á að lenda í „atburðarás sem muni minna mörg okkar á bankahrunið mikla árið 2008“ að því er Bloomberg hefur eftir heimildum.

Lagarde sagði seðlabankann væri að íhuga alla möguleika fyrir fund sinn á morgun fimmtudag, en þá er talið bankinn muni feta í fótspor Englandsbanka, og íslenska seðlabankans og lækka stýrivexti. Auk þess er talið að bankinn muni setja aukinn kraft í magnbundna íhlutun sína á markaði með uppkaupum á skuldabréfum.

Meðal aðgerða sem verið er að skoða er að veita bönkum sérlega ódýra fjármögnun til að tryggja að lán séu auðfáanleg um alla Evrópu, og að fjármagn haldi áfram að flæða um hagkerfi Evrópusambandsins.

Hún varaði samt sem áður við því að aðgerðir Seðlabanka Evrópu gætu einungis virkað ef þær nytu stuðnings stjórnvalda í ESB ríkjunum. Sagði hún að leiðtogar ríkjanna þyrftu að tryggja að fyrirtæki sem yrðu fyrir áhrifum af útbreiðslu veirunnar héldu áfram að fá lánafyrirgreiðslur frá bönkum og auka örvunaraðgerðir í útgjöldum ríkjanna.

Þannig gætu áhrifin orðið tímabundin ef gripið yrði til réttra aðgerða, en þó hún jafnframt hrósaði viðbrögðum sumra ríkja, þyrfti að gera meira, þar sem líklegt er að skaðinn gæti breiðst út og jafnvel leitt til „hruns í hlutum hagkerfa ykkar“, að því er Guardian fjallar um.