Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, skoraði í gær á Bandaríkjamenn að leggja skuldugum Evrópuríkjum lið, það væri í þeirra eigin þágu að lána þeim fé á erfiðum tímum. Greint er frá þessu á RÚV.

Lagarde benti á að ríki hefðu lagt mun drýgri hluta tekna sinna í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn fyrir 60 árum en nú, allt að fjórum sinnum meira. Hún hefur farið fram á 500 milljarða dollara frá aðildarríkjum sjóðsins til að bregðast við áföllum og kreppum.

Bandaríkjamenn hafa ekki enn staðfest sáttmála frá því í fyrra sem skuldbindur þá til að leggja 63 milljarða dollara í sjóðinn. Sjálfir eru þeir stórskuldugir, fréttaskýrendur segja að það myndi jafngilda pólitísku sjálfsvígi að leggja til aukin framlög í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn á kosningaári.