Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, tilkynnti á blaðamannafundi í morgun að hún sækist eftir að verða næsti framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fullyrt er að hún hafi tryggt sér stuðning allra ríkja Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Kína.

Líkt og kunnugt er sagði Dominique Strauss-Kahn af sér sem framkvæmdastjóri AGS, eftir að hafa verið handtekinn grunaður um að reyna að nauðga hótelþernu. Síðan þá hafa vangaveltur um eftirmann hans verið háværar, en Lagarde þótt líklegasti arftakinn.

Í frétt Reuters er greint frá sameiginlegri yfirlýsingu BRICS-ríkjanna, Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka, þar sem þau gagnrýna að sjálfsagt þyki að næsti yfirmaður AGS verði Evrópubúi. Sú hefð hefur ríkt allt frá stofnun sjóðsins.