„Það er kjarnaatriði í þessari deilu að það er verið að óska eftir kjarabótum sem eru talsvert umfram það sem almenni markaðurinn hefur samið um,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið , en ríkissáttasemjari sleit viðræðum Bandalags háskólamanna (BHM) og ríkisins seint í gærkvöldi eftir þrettán klukkustunda fund.

Spurður hvort lög yrðu sett á verkfall BHM segir Bjarni að ríkið þurfi að velta því alvarlega fyrir sér hvort það séu einhverjar líkur á að samningar geti náðst eftir níu vikna verkfall. Fundi í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga var einnig slitið í gær og segir Bjarni þær viðræður mjög erfiðar og ríkið hafi lagt mikið af mörkum til að reyna að leysa þá deilu.

„Við höfum lagt mikið af mörkum og haft miklar áhyggjur af því verkfalli. Það vita allir að það hefur haft alvarlegar afleiðingar. Við höfum nálgast þær viðræður með þeim hætti að við viljum að fólk skynji að við kunnum að meta störf þess og berum virðingu fyrir stétt þess og mikilvægi hennar innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Bjarni.