Hafin er vinna á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands við gerð hlutlauss kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl næstkomandi, í samræmi við ályktun Alþingis þar að lútandi.

Í tilkynningu frá Lagastofnun HÍ segir að gert sé ráð fyrir að kynningarvefur verði opnaður 28. mars á veffanginu thjodaratkvaedi.is.


Tilkynningin frá Lagastofnun:

Innanríkisráðuneytið mun í næstu viku dreifa sérprentun laga nr.  13/2011, sem forseti Íslands synjaði staðfestingar, en samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þarf sérprentunin að hafa borist inn á hvert heimili landsins minnst viku fyrir kjördag.

Að mati Lagastofnunar hefði verið æskilegt að dreifa kynningarbæklingi hennar og sérprentun laganna samtímis en það reyndist ekki gerlegt vegna þess hve skammt er síðan Lagastofnun var falið verkefnið sem að henni snýr.

Gert er ráð fyrir að

  • kynningarvefur Lagastofnunar verði opnaður mánudaginn 28. mars á veffanginu thjodaratkvaedi.is.
  • kynningarbæklingi Lagastofnunar verði dreift inn á hvert heimili mánudaginn 4. apríl og þriðjudaginn 5. apríl.

Ýmsir áhugamenn um málefni þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl hafa sett á laggir vefsíður til að koma efni því tengdu á framfæri og taka þátt í þjóðmálaumræðunni. Ábendingar um slíkar vefsíður væru vel þegnar á vefpóstfangið [email protected] til að unnt sé að vísa á þær af kynningarvef Lagastofnunar og þá þannig að mismunandi sjónarmið fái þar að njóta sín.