„Ég er mjög glaður. En ég hef vitað það svosem allan tímann að fréttin var sönn og rétt,“ segir Svavar Halldórsson, fréttamaður á RÚV. Hann hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn honum.

Jón Ásgeir stefndi Svavari vegna fréttar hans um að Fons félag Pálma Haraldssonar, hafi vorið 2007 lánað þrjá milljarða króna til huldufélagsins Pace Associates, sem skráð var í Panama. Peningarnir voru millifærðir í apríl þetta ár inn á reikning félagsins hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Sex dögum síðar var lánasamningur útbúinn í tengslum við millifærsluna og lánið afskrifað úr bókum Fons sama dag. Þá voru þrjú ár fram að gjalddaga þess. Í frétt Svavars kom fram að féð hafi runnið í vasa þeirra Pálma, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar.

Skiptastjóri Fons hefur leitað fjárins án árangurs og ákvað að stefna stjórnarmönnum Fons til greiðslu skaðabóta. Stjórnarmenn voru þeir Pálmi Haraldsson, Jóhannes Kristinsson, einn eigenda Fons, og lögmaðurinn Einar Þór Sverrisson. Stjórnarmennirnir sögðu á sínum tíma lánið hafa verið veitt til lóðakaupa á Indlandi.

Jón Ásgeir taldi að í fréttinni hafi verið lýst glæpsamlegu athæfi, hann sakaður um augðunarbrot og Svavar vegið að æru hans. Krafðist Jón Ásgeir þriggja milljóna króna í skaðabætur. Pálmi hefur sömuleiðis höfðað mál gegn Svavari vegna málsins og verður það tekið fyrir á næstu vikum.

Svavar vísar þessu á bug. „Ég lýsti því sem þarna var gert án þess að leggja dóm á það,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið og bendir á að öll gögn um lánafléttuna hafi komið fram.

Pálmi höfðaði jafnframt mál gegn Svavari vegna fréttarinnar og er líklegt að það verði tekið fyrir á næstu vikum, líklega öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.