Fyrrverandi starfsmaður MP banka, sem grunaður er um að hafa dregið sér fé að fjárhæð 60 milljónir króna, lagði mikla vinnu í að fela slóð sína og koma í veg fyrir að brotið uppgötvaðist. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP banka um málið.

Þar segir að málið hafi komið upp í mars síðastliðnum við reglubundið innra eftirlit þegar grunur vaknaði um að starfsmaður í bakvinnslu bankans hefði misnotað aðstöðu sína og dregið að sér fé. Bankinn líti málið afar alvarlegum augum og hafi þegar brugðist hart við. Málinu hafi strax verið vísað til lögreglu og bankinn hafi unnið náið með lögreglu við að upplýsa brotið, auk þess sem starfsmanninum var umsvifalaust sagt upp störfum.

Upphæðir færðar fram og til baka

Hin meintu brot áttu sér stað á rúmlega tveggja ára tímabili og dró starfsmaðurinn sér síðast fé um miðjan febrúar síðastliðinn. Þá segir að í ákærunni séu tíundaðar 110 færslur þar sem fé var fært úr bankanum en í raun hafi þurft að rekja umtalsvert fleiri færslur til að upplýsa brotið þar sem upphæðir voru færðar fram og til baka og brotnar upp og lagðar saman á ýmsan máta.

„Í kjölfar þess að upp komst um meint brot starfsmannsins hefur verið farið vandlega yfir þær aðferðir sem hann beitti, verkferlum innan bankans breytt og innra eftirlit eflt til að tryggja að sambærilegt mál komi ekki upp aftur.

MP banki hefur lagt fram bótakröfu á hendur ákærða sem hljóðar upp á rúmlega 60 milljónir króna. Rétt er að taka fram að meint brot snéri ekki að fjármunum viðskiptavina bankans og hafði engin áhrif á þá. Bankinn er tryggður fyrir tjóninu og gera má ráð fyrir að það fáist bætt að langstærstum hluta,“ segir í tilkynningunni.