*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 7. febrúar 2006 08:08

Lagerinn með 9,9% hlut í bandaríska félaginu Pier 1

markaðsvirðið um sex milljarðar miðað við lokagengi í gær

Ritstjórn

Lagerinn, félag í eigu Jákups Jacbsen, hefur keypt tæplega 10% hlut í bandarísku húsgagnaverslunarkeðjunni Pier 1, segir í tilkynningu til Securities and Exchange Commission (SEC).

Ekki kom fram hvenær Jákup, sem er stofnandi Rúmfatalagersins, keypti hlutinn en samkvæmt upplýsingum frá SEC nemur eignarhlutur hans 8,6 milljónum hluta, eða 9,9%.

Lokagengi bréfa Pier 1 í gær var 10,94 Bandaríkjadalir á hlut og er vermæti hlutarins því rúmlega 94 milljónir Bandaríkjadala, eða um sex milljarðar íslenskra króna.

Lagerinn keypti hlut í bandarísku verslunarkeðjunni Linens N'Things í fyrra, og nemur hluturinn rúmum 13% samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Fjárfestingafélagið Apollo hefur gert yfirtökutilboð í félagið, sem flestir hluthafar, og þar á meðal Jákup, hafa samþykkt.

Í september í fyrra greindi Viðskiptablaðið frá því að Lagerinn, fyrirtæki sem tengist eigendum Rúmfatalagersins, hefði eignast 9,9% hlut í Linens 'N Things. Lagerinn hafði þá keypt um 4,5 milljónir hluta í Linen 'N Things í samvinnu við TF Holding P/F og höfðu félögin keypt á þriggja mánaða tímabili fyrir 115 milljónir dala eða ríflega sjö milljarða króna á meðalgenginu 25,58 Bandaríkjadalir á hlut.

Kaupin hófust 24. ágúst og þá var gengi bréfa Linens'N Things 23,62 dalir á hlut. Áður hafði Lagerinn eignast bréf í félaginu þannig að ekki liggur nákvæmlega fyrir hver meðalkaupgengið er og talið er að heildarhlutur félagsins sé í rúmlega 13%.

Gera má ráð fyrir að gengishagnaður Lagersins sé á milli einn og tveir milljarðar króna af stöðu sinni í Linens 'N Things