Lagerinn, sem m.a. rekur verslanir Rúmfatalagersins á Íslandi, hefur gert samning um sölu á húsgagnaverslununum ILVA í Danmörku og Svíþjóð til danska félagsins IDdesign.

Samningurinn er gerður með nokkrum fyrirvörum, meðal annars um samþykki samkeppnisyfirvalda í Danmörku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lagernum en þó er tekið fram að ný verslun ILVA í Korputorgi fylgdi ekki með kaupunum og verður rekin áfram með óbreyttu sniði.

Þá kemur fram að ILVA og IDEmøbler munu áfram halda sínum sérkennum en hyggjast ná hagræðingu á öðrum sviðum m.a. í innkaupum og yfirstjórn.

Velta ILVA á síðasta ári var um 700 milljónir danskra króna og gert er ráð fyrir að velta sameinaðs félags verði um 2 milljarðar danskra króna á þessu ári.

„IDEmøbler og ILVA munu vera í sterkri stöðu til að mæta erfiðu árferði á danska húsgagnamarkaðinum á næstu misserum,“ segir í tilkynningunni.

Lagerinn mun eftir sem áður halda áfram rekstri ILVA á Íslandi og mun ásamt IDdesign jafnframt kanna möguleika á samstarfi og opnun verslana í ákveðnum löndum utan Evrópu.

Markmið Lagersins með sölunni er að einfalda rekstur móðurfélagsins og einbeita sér að starfsemi Rúmfatalagersins, en fyrir utan íslensku verslanirnar rekur félagið m.a. 40 verslanir undir nafni JYSK í Kanada, 26 í Eystrasaltslöndunum, ásamt verslunum í Búlgaríu, Rúmeníu og Færeyjum.