Norska flugfélagið Norwegian Air Shuttle ASA er fimmta stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Hefur það verið að gera það gott að undanförnu og hefur sett hvert metið af öðru í farþegaflutningum síðan í maí. Í ágúst var einn eitt metið slegið eþegar félagið flutti 1.007.623 farþega samanborið við 857.136 farþega á sama tíma 2008. Nemur aukningin 150.487 farþegum eða 18% í mánuðinum og 12,6% aukning var á fyrri helmingi ársins.

Norwegian Air Shuttle var í ársbyrjun útnefnt markaðsleiðtogi ársins í Noregi og í ágúst í fyrra útnefndi SkuTrax félagið besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu. Um 85% bókana með félaginu fara fram á netinu, en sætanýting hefur aukist úr 79% í ágúst 2008 í 81% í ágúst 2009. Í ágúst stóð félagið við 99,9% af áætluðu flugi og 87,7% brottfara var á réttum tíma.

Félagið er skráð á Oslo Stock Exchange og hefur fjárhagur þess batnað verulega á milli ára. Þannig var nettó hagnaður á fyrri helmingi þessa árs 70,6 milljónir norskra króna samanborðið við 272,9 milljóna króna tap á sama tímabili 2008.

Félagið hefur yfir að ráða 45 flugvélum. Þar af eru 13 Boeing 737-800 og 28 þotur af gerðinni Boeing 737-300. Auk þess er félagið með 4 McDonnell Douglas MD-80. Á árunum 2008 til 2014 er áætlað að ljúka endurnýjun á öllum flugflotanum með kaupum á 58 nýjum Boeing 737-800 flugvélum sem eru taldar þær sparneytnustu og umhverfisvænstu á markaðnum.

Dótturfélög Norwegian Air Shuttle ASA eru Norwegian Air Shuttle Polska Sp.zo.o og Norwegian Air Shuttle Sweden AB (Norwegian.se). Þá á félagið símafyrirtækið Call Norwegian AS og 99,9% hlut í NAS Asset Management, en NAS Asset Management Norway AS á þar 0,1%. Norwegian á einnig 100 % í NAS Asset Management Norway AS og 20 % í Norwegian Finans Holding ASA (Bank Norwegian AS).