Fjögur þúsund viðskiptavinir ástralska lággjaldaflugfélagsins Air Australia eru strandaglópar víða um heim eftir að flugfélagið fór í þrot í nótt. Félagið flaug innanlands, til Indónesíu, Taílands og Bandaríkjanna. Í netútgáfu ástralska dagblaðsins The Sidney Morning Herald kemur fram að 100 þúsund manns hafi átt bókaðar ferðir með félaginu. Það hafi hins vegar orðið fórnarlamb snarpra verðhækkana á eldsneyti, á endanum ekki ráðið við kostnaðinn.

Blaðið segir gert ráð fyrir því að önnur flugfélög muni koma viðskiptavinum Air Australia til síns heima um helgina. Þá sé líklegt að skiptastjórar félagsins muni reyna að finna kaupanda að eignum félagsins.

Hjá Air Australia vinna 300 manns.