*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 11. október 2019 16:02

Skattar Facebook vekja reiði Breta

Facebook í Bretlandi greiddi 4,5 milljarða króna í skatt í fyrra en tekjur félagsins voru 260 milljarðar króna.

Ritstjórn
Reiði vegna lágra skattgreiðslna alþjóðlegra tæknifyrirtækja vex nú hratt ásmeginn.

Tekjur af starfsemi Facebook í Bretalandi jukust um 30% í fyrra miðað við árið 2017, aðallega vegna aukinnar auglýsingasölu, og voru 1,65 milljarður punda sem jafngildir 260 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður ársins jókst um rúman helming og var tæpar 100 milljónir punda eða 16 milljarða króna. Sama ár greiddi Facebook 28,5 milljónir punda í skatt eða sem samsvarar 4,5 milljörðum króna. 

4,5 milljarðar af 260 milljörðum er skattheimta sem þingmaðurinn Margaret Hodge kallar hneyksli (e. outrageous). Þá sé það salt í sárið að Facebook greiði svo lága skatta einmitt það ár þegar flett var ofan af vafasamri aðkomu Cambridge Analytica og Facebook í kosningunum um Evrópusambandið. 

Ákall Hodge um að skattar á alþjóðleg tæknifyrirtæki verði hækkaðir hafa fengið töluverðan hljómgrunn enda borgar hinn almenni launamaður umtalsvert hærra hlutfalla tekna sinna til hins opinbera. 

Þótt skattgreiðslur Facebook í fyrra hafi verið lágar í samanburði við tekjuskattshlutfall launafólks þá greiddi Amazon enn lægri skatta. Tekjur af starfsemi Amazon í Bretlandi voru 2,3 milljarðar punda í fyrra en félagið greiddi 14,7 milljónir punda til ríkisins, eða sem jafngildir 2,3 milljörðum íslenskra króna af 460 milljarða króna tekjum. 

Talsmaður Facebook í Norður Evrópu segir hins vegar ekkert athugavert við skattgreiðslur fyrirtækisins í Bretlandi enda í fullu samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Hann benti á að Facebook hafi fjárfest fyrir 356 milljónir punda í rannsóknir og þróun á síðasta ári. Þá hafi tæplega 1.300 manns starfað hjá félaginu árið 2017, í fyrra hafi fjöldi starfsmanna farið yfir 2.000 og í lok þessa árs verði þeir orðnir 3.000 talsins. 

Stikkorð: Facebook skattar