Það er goðsögn að fjármagnstekjuskattur á Íslandi sé meðal þess sem lægst gerist í þeim löndum sem við berum okkur jafnan saman við.  Ekki er öll sagan sögð þegar skatturinn er borinn saman við önnur ríki.

Þetta sagði Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, á morgunverðarfundi Deloitte og Samtaka verslunar og þjónustu í dag. Vala fjallaði um breytingar á íslenska skattkerfinu og bar saman árin 2005 og 2011. Hún sagði að samanburður á skattprósentum landa á milli sé afar slæmt viðmið, þar sem sérreglur eru mismunandi milli landa.

„Við höfum örugglega öll heyrt það sagt að þrátt fyrir að fjármagnstekjuskattur hafi verið tvöfaldaður hér á landi þá sé hann samt svo lágur. Okkur er bent á að skoða Noreg, þar sem skattprósentan er mun hærri. En prósentur segja ekki allt og það er heila málið,“ sagði Vala en skattprósentan í Noregi er á bilinu 28-40% samanborið við 20% fjármagnstekjuskatt hér. Hún sagði að verið væri að bera saman brúttó stærðir á íslandi við nettó stærðir í Noregi.  Í Noregi er allur vaxtakostnaður frádráttarbær frá vaxtatekjum. Hér er hinsvegar 100.000 krónu frítekjumark, og ef tekið er tillit tið verðbólgu þá er meira en mögulegt að öll ávöxtun sé greidd í skatt, sagði Vala.

Vala benti einnig á að hér gildi engar reglur um frádrátt eða frítekjumark arðgreiðslna. Í Noregi, sem Vala tók dæmi um og bar saman við Ísland, gilda sérstakar reglur sem geri arðgreiðslur skattfrjálsar ef arðgreiðslan er lægri en ávöxtun af fjárfestingu í ríkisskuldabréfum. Þá er að auki hægt að nota mismun á skattfrjálsri fjárhæð sem er hærri en arðgreiðslan til frádráttar á næstu árum.

Að sama skapi er engin frádráttarregla hér á landi þegar kemur að söluhagnaði hlutabréfa og sölutap kemur ekki til frádráttar hagnaði nema innan árs. Vala sagði að í Noregi gildi reglur um að hægt sé að nýta sölutap til frádráttar skatts á næstu árum.

„Það er verulegur munur hér á og ég tel að það sé algjör goðsögn að hér sé lágur fjármagnstekjuskattur.“ Vala tók fram að Noregur sé ekki eina dæmið um þetta, líta mætti til Danmerkur og annarra Norðurlanda.