*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 21. júní 2020 14:05

Lágir vextir auki samkeppnishæfni

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að áður óþekkt lágvaxtaumhverfi styðji við samkeppnishæfni Íslands.

Sveinn Ólafur Melsted
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Eyþór Árnason

Nýr veruleiki Stýrivextir hér á landi eru í dag 1% og hafa aldrei verið lægri í sögunni. Fyrir rúmlega ári voru stýrivextir 4,5% og áður en COVID-19 setti strik í reikning íslenska hagkerfisins var peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þegar búin að lækka stýrivexti í nokkur skipti, til að bregðast við kólnun í hagkerfinu. Áður óþekkt lágvaxtaumhverfi blasir því nú við íslensku þjóðinni.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, segir að einn stærsti kosturinn við lágvaxtaumhverfið sé í raun það sem gerir því kleift að þrífast - sem sé sú staðreynd að loks hafi náðst mun betri tök á verðbólgu en nokkru sinni áður í íslenskri hagsögu.

„Þetta umhverfi auðveldar líf margra heimila og fyrirtækja allverulega vegna minnkandi fjármagnskostnaðar og aukins stöðugleika. Fjármagnskostnaður er nú kominn nær því sem þekkist erlendis, sem skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar. Einn helsti veikleiki íslenska hagkerfisins í gegnum tíðina hefur verið flest allt sem viðkemur fjármögnun. Það styður við samkeppnishæfni landsins að við séum komin nær því vaxtaumhverfi sem gengur og gerist hjá okkar helstu viðskiptalöndum.

Það hefur einnig einhverja galla með sér í för að stýrivextir séu lágir, því þá er erfiðara fyrir fólk að fá ávöxtun á sparifé sitt og fjárfestingar. Þetta eru ótroðnar slóðir fyrir okkur Íslendinga því við höfum hingað til getað gengið að því vísu að fá góða vexti á innlánum og skuldabréfum. Þetta vaxtaumhverfi gjörbreytir því einnig hvað lífeyrissjóðir geta vænst að fá mikla ávöxtun í framtíðinni. Þeir eru með 3,5% raunávöxtunarviðmið á ári, en þegar við erum komin inn í veruleika þar sem verðtryggðir vextir ríkisskuldabréfa eru innan við 0% og íbúðalánavextir bera allt að því enga raunvexti, hlýtur það að gefa tilefni til þess að endurskoða það viðmið."

Nánar er rætt við Konráð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér