Almennt séð eru vextir í alþjóðahagkerfinu of lágir og þeir knýja áfram skekkju á mörkuðum, sem hefur leitt til þess að fjárfestar skuldsetja sig ógætilega í stöðutökum, sem aftur hefur ýtt undir hækkanir á eignamarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem var birt í gær.

Fjármálastofnanir og skuldsettir fjárfestar ættu að vera betur meðvitaðir um þá áhættu sem því fylgir þegar aðgangur að ódýru fjármagni í heiminum er jafn greiður eins og raunin er um þessar mundir. Slíkt ástand getur ekki varað mikið lengur. Að lokum mun markaðurinn leiðrétta sig og til að vera undir það búin ættu fjármálastofnanir og fjárfestar að tryggja að þeir eigi nægt fjármagn fyrir hendi til að mæta hugsanlega tapi í nálegri framtíð, segir í skýrslu OECD.

Varnaðarorð til vogunar- og einkafjárfestingarsjóða
OECD kallar einnig eftir því að seðlabankar á heimsvísu - einkum í Asíu - aðlagi peningamálastefnu sína í meira mæli að þessu ástandi sem ríkir á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. "Þegar skuldsetning spilar jafn stóran þátt í þeim öfluga efnahagsuppgangi sem átt hefur sér stað undanfarin ár, þá þurfa stjórnvöld að veita því athygli - sagan kennir okkur að slíkt endar oftar en ekki illa", segir Adrian Blundell-Wignall, forstöðumaður fjármála- og fyrirtækjasviðs OECD og höfundur skýrslunnar.

Blundell-Wignall bendir á það að raunvextir séu líklega of lágir. Af þeim sökum hefur vægi og áhrif vogunar- og einkafjárfestingarsjóða aukist verulega á undanförnum árum. Í skýrslunni fer OECD varkárum orðum um mikilvægi þess hlutverks sem slíkir sjóðir gegna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vissulega veita einkafjárfestingarsjóðir mikilvæga þjónustu þegur kemur að því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja sem stendur ekki undir sér, á meðan vogunarsjóðir bjóða upp á mikið lausafjármagn sem aftur hjálpar til að draga úr sveiflum á markaði og þannig aukið hagvöxt. Hins vegar ef alþjóðlegur kostnaður á fjármagni er ekki rétt verðlagður sökum þeirrar miklu aukningu sem hefur orðið af framboði á ódýru lánsfé, þá gæti afleiðingin af því verið ofmat fjárfesta á getu þeirra til þess að skuldsetja sig í stöðutökum.

Frumkvæði fjárfesta og fyrirtækja
Í skýrslu OECD er því haldið fram að helsta ástæðan fyrir þessari aukningu sem hefur orðið af framboði á peningum sé annars vegar hinn gríðarmikli gjaldeyrisforði Kínverja og hins vegar lágir stýrivextir í Japan. Gjaldeyrisforði Kína er metin á 1,1 billjón Bandaríkjadala og er sjóðurinn að stórum hluta notaður til fjárfestinga í bandarískum skuldabréfum, sem hefur gert það að verkum að vextir eru lægri í Bandaríkjunum heldur en ella. Hinir lágu vextir sem lengi hafa verið í Japan hafa ýtt undir vaxtamunarviðskipti sem mjög erfitt er orðið að festa reiður á hversu umfangsmikil eru.

Að mati Blundell-Wignall mun bakslag á markaðinum vera hrundið af stað þegar - frekar en ef - óstöðugleiki á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði myndast sökum óeðlilega mikils framboðs af fjármagni. Slíkt ástand gæti meðal annars orðið til ef áframhald verður á slæmri skuldastöðu hjá einstaklingum á bandarískum fasteignamarkaði; lán sem vogunar, tryggingar - og lífeyrissjóðir hafa tekið falla í vanskil; vísbendingar um aukin verðbólguþrýsting fer að gera vart við sig í alþjóðahagkerfinu; eða ef jenið fer að styrkjast sem myndi leiða til þess að vaxamunarviðskipti minnkuðu.

Til þess að koma í veg fyrir það að ofgnótt verði af framboði á fjármagni á alþjóðavísu, þá verða seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim að fjarlægja þá þætti sem leiða til þess að slíkt ástand verði að veruleika. Aftur á móti er stefna einstakra ríkja á sumum svæðum í heiminum þess eðlis að erfitt gæti reynst að ná samstöðu um stefnumótun í þeim efnum. Sökum þess ættu fjárfestar og fyrirtæki að eiga frumkvæði að því að ráðast í aðgerðir sem munu tryggja greiðslugetu þeirra betur til að mæta þeim breyttu aðstæðum á fjármagnsmörkuðum þegar vaxtakostnaður færist í "eðlilegra horf" á heimsvísu.