*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 29. maí 2021 19:01

Lágir vextir ýtt fólki í áhættumeiri eignir

Nýtt eignastýringasvið Fossa markaða mun þjónusta þá sem sýna eignaflokkum sem kalla á faglega stýringu áhuga.

Júlíus Þór Halldórsson
Anna Þorbjörg Jónsdóttir mun leiða nýtt eignastýringasvið Fossa markaða, sem verður til húsa við Skálholtsveg 7.
Eyþór Árnason

Fyrr í þessum mánuði tilkynntu Fossar markaðir að boðið yrði upp á eignastýringu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Anna Þorbjörg Jónsdóttir, sem fer fyrir hinu nýja sviði, segir nokkurt ákall hafa verið eftir auknu þjónustustigi frá viðskiptavinum, bæði frá núverandi viðskiptavinum og aðilum tengdum þeim. „Eignastýring er í raun eðlileg framvinda og náttúruleg viðbót við þessa fjárfestingarráðgjöf sem við höfum verið að veita á undanförnum árum og hefur verið að vaxa jafnt og þétt á síðustu misserum.“

„Eignastýring hentar viðskiptavinum sem vilja frekar að sérfræðingar sjái um eignasöfnin og fjárfesti eftir fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu,“ segir hún. Að sama skapi bjóði Fossar líka fjárfestingarráðgjöf sem henti viðskiptavinum sem hafi sjálfir mikla þekkingu á fjárfestingum og vilji taka beinan þátt í ákvörðunum um þær.

Fólk færir sig í erlendar fjárfestingar
Mikill vöxtur hefur verið á hlutdeild eignameiri einstaklinga, fjölskyldna og fjárfestingafélaga meðal viðskiptavina Fossa síðustu misseri. „Við höfum lagt aukna áherslu á þennan hóp og hann hefur komið í miklum mæli inn á markaðinn síðustu misseri, og hefur sýnt þessari þjónustu mikinn áhuga.“

„Þetta er stór hópur fólks og fyrirtækja sem hefur vegnað vel, bæði innanlands og utan. Eins hafa Íslendingar sem hafa verið erlendis með fjárfestingar sýnt þjónustu okkar áhuga. Við sinnum fjölbreyttum hópi viðskiptavina með ólíkar fjárfestingarþarfir og mismunandi markmið.

Í upphafi var áhersla okkar í fagfjárfestaþjónustu Fossa á stofnanafjárfesta og erlendar fjárfestingar þeirra. En í kjölfar afnáms gjaldeyrishaftanna kom í ljós að fleiri viðskiptavinir, sem til þessa höfðu nýtt sér miðlun Fossa á innlendum verðbréfamarkaði, höfðu einnig mikinn áhuga á að fjárfesta utan landsteinanna.“

Fossar státa að sögn Önnu Þorbjargar af öflugu tengslaneti erlendis sem býður upp á mikla möguleika við eignastýringu. Félagið leggur áherslu á vel dreifð alþjóðleg eignasöfn, sem það telur vænlegust til árangurs til lengri tíma litið. „Við erum með samninga við hátt í 20 erlend sjóðastýringarhús sem við veljum í samstarfi við erlenda ráðgjafa. Við bjóðum gott úrval erlendra sjóða í öllum eignaflokkum, og höfum augun alltaf opin fyrir nýjum fjárfestingartækifærum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.