Lágmarksfjárhæð, sem Viðlagatrygging Íslands greiðir þeim er verða fyrir tjóni af völdum hamfara, hefur nú verið lækkuð. Lágmarksfjárhæð eigin áhættu verður nú 20 þúsund krónur í stað 85 þúsund króna eins og áður var.

Í lögum um Viðlagatryggingu Íslands segir að eigin áhætta skuli vera 5 % af hverju tjóni, þó aldrei lægra en 40 þúsund krónur. Fjárhæðin er tengd byggingarvísitölu og er að núgildi um 85 þúsund krónur.

Í fréttatilkynningu frá Viðskiptaráðuneytinu segir að „fram hafi komið ábendingar um að eigin áhætta, vegna tjóna á lausafjármunum sem bæta skal úr Viðlagatryggingu Íslands, sé óeðlilega há. Til samanburðar, er eigin áhætta innbústrygginga hjá vátryggingafélögunum yfirleitt á bilinu 10 til 20 þúsund krónur. Skýrt er kveðið á um eigin áhættu í lögum og því ekki hægt að lækka eigin áhættu vátryggðs hjá Viðlagatryggingu nema með lagabreytingu.”

Ríkisstjórnin ákvað því, að tillögu viðskiptaráðherra að setja bráðabirgðalög sem kveða á um að lágmars fjárhæð eigin áhættu skuli verða 20 þúsund krónur.

Í lögunum er ennfremur felld niður vísitölutenging lágmarks eigin áhættu og í staðinn veitt reglugerðarheimild til að ákvarða fjárhæðina. Breytingarnar eru gerðir í samvinnu við Viðlagatryggingu Íslands.

Fyrirhugað er í september, nýtt frumvarp til laga um Viðlagatrygginu Íslands. Núverandi lög eru frá 1992 og þarfnast endurskoðunar.