Lágmarkstilboð í komandi hlutafjárútboði Icelandair hefur verið lækkað, úr 250 þúsund krónum niður í 100 þúsund krónur. Þetta kemur fram í uppfærðri fjárfestakynningu Icelandair sem var að fara í loftið. Útboðslýsing vegna hlutafjárútboðsins verður birt á „innan fárra daga“ en útboðið sjálft fer fram 14.-15. september næstkomandi.

Samkvæmt henni mun A-bókin telja 17 milljarða hluta og falla öll tilboð yfir 20 milljónum króna í hana. B-bókin telur 3 milljarða og er fyrir tilboð allt að 20 milljónum króna og niður í 100 þúsund krónur.

Fjárfestakynningin hefur einnig að geyma svör við spurningum fjárfesta sem borist hafa frá fjárfestum og kennir þar ýmissa grasa. Þar kemur meðal annars fram að á meðan meðal starfsemi félagsins er með minnsta móti er áætlað að útgjöld muni nema á bilinu 15-18 milljónum dollara. Dragist það tímabil á langinn sé líklegt að félagið þurfi að draga á þrautavaralánalínu sem ríkissjóður ábyrgist að 90%.

Þar kemur einnig fram að hefðu nýir kjarasamningar félagsins við flugstéttir verið í gildi árið 2018 hefði heildarkostnaður þess lækkað sem nemur 39 milljónum dollara. Stærstur hluti þess, 23 milljónir dollara, er vegna flugmanna, tólf milljónir dollara vegna flugfreyja og afgangurinn vegna flugvirkja.

Svar félagsins var neikvætt þegar spurt var að því hvort einhver hluti fjármunanna, sem fyrirhugað er að safna, muni renna til lánadrottna félagsins samkvæmt nýjum skilmálum þeirra lána. Skilmálum lánanna hafi þó verið breytt þannig að félagið sé sem stendur ekki með brotna lánaskilmála.

Þá segir enn fremur að félagið sé að skoða möguleika á því að vera með blandaðan flota og sé þar meðal annars verið að horfa til Airbus 321LR og Boeing 737Max. Endurskoðun á flotamálum hafi hins vegar verið sett á ís á meðan flugmarkaðurinn nær sér á nýjan leik vegna faraldursins.

Kynninguna má sjá í heild sinni með því að smella hér .