Við mat á áhættuþáttum í fjármálakerfinu hefur fjármálastöðugleikaráð sent Fjármálaeftirlitinu tilmæli um hækkun á svokölluðum sveiflujöfnunarauka um 0,25 prósentustig.

Metur ráðið þjóðhagslegar aðstæður fjármálakerfinu hagstæðar með ágætum fyrirtækjahagnaði, hækkandi ráðstöfunartekjum heimila og minnkandi atvinnuleysi.

Fé til að ganga á í niðursveiflu

Sveiflujöfnunaraukinn er sá eiginfjárauki sem fjármálakerfið verður að hafa yfir að ráða sem eigið fé og ganga megi á verði hagkerfið fyrir áföllum til að hægt sé að jafna sveifluna.

Mun nýr sveiflujöfnunarauki, sem nemur 1,25%, því taka gildi um 12 mánuðum frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þar um. Við ákvörðun á sveiflujöfnunaraukanum í janúar síðastliðnum var hann ákveðinn sem 1% og er röksemdin sú að rétt sé að byggja upp varasjóð á þenslutíma.

Stóru bankarnir með meiri lágmarkseiginfjárkröfu

Kemur hann til viðbótar við kröfu ráðsins frá í janúar um að lágmarkseiginfjárkrafa stóru bankanna þriggja eigi að vera 16,5% og minni útlánastofnanir með 14,5%.

Því til viðbótar eigi allar innlánsstofnanir að vera með auka 3% í eigið fé af innlendum áhættuvegnum eignum. Minni fjármálastofnanir fái þó aðlögunartíma fram til ársins 2019.

Fjármálastöðugleiki og kerfisáhætta metin

Fjármálastöðugleikaráð fundar fjórum sinnum á ári og var síðasti fundur haldinn föstudaginn 30. september síðastliðinn. Formaður þess er fjármálaráðherra, en einnig sitja í því Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Byggir ráðið mat sitt og greiningu á úttekt kerfisáhættunefndar sem situr undir forystu Seðlabankastjóra. Í nefndinni sitja einnig forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðstoðarseðlabankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins auk utanaðkomandi aðila sem ráðherra skipar.