Almennir kröfuhafar í slitabúi Glitnis sem eiga kröfur að fjárhæð 3,5 milljónir króna eða minna fá þær greiddar upp að fullu með eingreiðslu í evrum samþykki nægjanlegur meirihluti þeirra fyrirliggjandi tillögur slitastjórnar að nauðasamningi. Aðrir stærri kröfuhafar munu einnig á sama tíma fá 3,5 milljóna króna greiðslu upp í kröfur sínar á hendur Glitni. Greint er frá þessu í DV .

Þar segir að þetta komi fram í gögnum sem slitastjórn Glitnis sendi til kröfuhafa í síðustu viku og þar sé meðal annars fjallað um meiginatriði nauðasamningsfrumvarps slitabúsins. Gert sé ráð fyrir að þessi lágmarksgreiðsla til kröfuhafa muni samtals nema 7,2 milljörðum króna, en þar af muni 2,3 milljarðar fara til þeirra sem eiga kröfur að nafnvirði 3,5 milljóna eða minni.

Einnig er greint frá því að fyrirhuguð lágmarksgreiðsla Glitnis sé aftur á móti nokkuð lægri en búist hafi verið við. Áður var talið að hún yrði í kringum 8 til 10 milljónir króna. Ekki sé þó útilokað að tillagan taki breytingum á kröfuhafafundi sem haldinn verður næsta þriðjudag.