Um áramótin gengu í gildi breyting á lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða en það hækkar úr 10% af heildarlaunum í 12% frá og með 1. janúar 2007. Er sú hækkun í samræmi við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði.


Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.

Til að raska ekki gildandi kjarasamningum er jafnframt lagt til bráðabirgðaákvæði við lögin, um að þar sem kveðið er á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera 10% í núgildandi kjarasamningi, skuli heimilt að miða áfram við 10% lágmarksiðgjald þar til nýr kjarasamningur öðlast gildi.


Í frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða kemur fram að lögin munu hafa mest áhrif gagnvart þeim einstaklingum, sem ekki falla undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, svo og gagnvart sjálfstæðum atvinnurekendum og einyrkjum, sem þurfa nú að greiða frá og með næstu áramótum 12% iðgjald af launum til lífeyrissjóða.


Í lífeyrissjóðalögunum eru engin ákvæði um skiptingu iðgjalda milli launþega og launagreiðanda. Í flestum tilvikum, þar sem samið hefur verið um 12% lágmarksiðgjald, greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 8%.