Fjármálaráðherra Bretlands, George Osbourne, hefur lagt fram fjárlög ársins 2015 sem eiga að hans sögn að stuðla að hagkerfi „hárra launa, lágra skatta og minni útgjalda til velferðarmála“.

Í heildina litið er þeim ætlað að draga úr aðhaldi og koma afgangi á ríkisfjármál á næstu fimm árum. Í fjárlögunum er m.a. gert ráð fyrir að lágmarkslaun hækki úr 7,2 pundum á klukkustund (tæplega 1.500 krónur) yfir í níu pund (um 1.900 kr.) fyrir árið 2020 en í þeim er einnig gert ráð fyrir átta prósenta skatti á hagnaði banka sem myndi lækka í skrefum á næstu sex árum.

Þá er vonast til þess að halli á ríkisrekstri falli niður í 3,7% á þessu ári, 2,2% frá 2016 til 2017, 1,2% 2018 og svo niður í 0,3% frá 2018 til 2019. Hagvaxtarspá fyrir árið í ár fellur niður í 2,4% frá 2,5% frá fyrra ári og er spáð 2,3% hagvexti á næsta ári. Árin þar á eftir á hagvöxtur að aukast á ný í Bretlandi samkvæmt spám.

„Breltand eyðir enn of miklu og fær of mikið að láni,“ sagði Osbourne þegar hann kynnti fjárlögin og bætti því við að hann vonist til að sjá „land sem getur að fullu greitt skuldir sínar.“

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times , Guardian og BBC .