Forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev, segir að lágmarkslaun í Rússlandi muni hækka úr 6.204 rúblum á mánuði í 7.500 rúblur á mánuði í júlí. Um er að ræða 20% hækkun, en 7.500 rúblur jafngilda um 13.700 krónum.

Um er að ræða aðra hækkunina á þessu ári, en lágmarkslaunin voru hækkuð um 4% í janúar. Medvedev sagði í ræðu á flokksþingi stjórnarflokksins Sameinaðs Rússlands að bilið milli lágmarkslauna og framfærslukostnaðar væri enn nokkuð hátt og að fólk væri áhyggjufullt.

Þingkosningar verða haldnar í Rússlandi í september og segir í frétt CNN að stjórnvöld reyni nú að sannfæra kjósendur um að botninum sé náð í kreppunni sem plagað hefur landið undanfarin misseri. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að landsframleiðsla Rússlands muni dragast saman um 1% á þessu ári, en hagvöxtur í landinu var neikvæður um 3,7% í fyrra.