Stjórnvöld í Malasíu hafa sett gólf á launatekjur með setningu lágmarkslauna í landinu. Er það gert til þess að styðja við heimili með lágar tekjur, að því er BBC greinir frá.

Lágmarkslaun í einkageiranum verða 900 ringgit, eða sem jafngildir um 297 dollurum á mánuði. Það eru um 37 þúsund króna mánaðarlaun. Forsætisráðherra landsins segir setningu lágmarkslauna marka tímamót fyrir landið.

Gagnrýnendur lágmarkslaunanna telja að þau séu of há og komi illa við minni fyrirtæki á afskektari stöðum, en litlum fyrirtækjum hefur verið gefin eitt ár til þess að aðlaga sig að nýjum reglum.

Malasía er þriðja stærsta hagkerfið í Suðaustur-Asíu og stefnir landið á að tilheyra ríkari þjóðum heimsins fyrir árið 2020.