„Það er ánægjulegt að þarna eru komin samningsdrög til nokkuð langs tíma sem ættu, ef framkvæmd þeirra gengur eftir, að byggja undir áframhaldandi kaupmáttaraukningu, “ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að gildistími kjarasamnings VR, LÍV, Flóabandalagsins og Stéttarfélags Vesturlands við Samtök atvinnulífsins verði til ársloka 2018. Samkvæmt samningsdrögunum er gert ráð fyrir að lágmarkstekjutrygging, sem nú nemur 214 þúsund krónum, hækki um 86 þúsund krónur á samningstímanum og verði 300 þúsund krónur á mánuði frá og með maí 2018.

Í samningnum mun einnig vera ákvæði um kaupmáttaraukningu en hún er forsenda fyrir því að samningurinn haldi. Aukist kaupmáttur ekki á samningstímanum opnast samningurinn.