Lagning DANICE sæstrengsins hófst s.l. þriðjudag frá landtökustöð í Landeyjum, en lagning strengsins hófst frá landtökustöð í Danmörku í byrjun september. Tvö strenglagningaskip frá bandaríska fyrirtækinu TYCO Telecommunications leggja strenginn.

Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri Farice hf. sagði í samtali við vb.is að Danice sæstrengurinn væri viðbót við sæstrenginn sem væri fyrir. “Íslensk fjarskiptafyrirtæki reiða sig á CANTAT-3 sæstrenginn sem varaleið, flutningsgeta þess strengs er orðin of lítil. Með tilkomu DANICE strengsins verða hins vegar til reiðu tvær jafngildar flutningsleiðir fjarskipta við landið, þ.e. um FARICE-1 og DANICE. Kostnaðurinn við lagningu sæstrengsins væri um 83 milljónir evra og væri þá allt innifalið,” segir Guðmundur.

Áætlað er að skipin mætist norðaustur af Færeyjum seinni hluta nóvembermánaðar og verða strenghlutarnir tveir  þá tengdir saman. Samtímis er unnið að uppsetningu búnaðar fyrir landleiðir á Íslandi og í Danmörku og jafnframt stendur yfir stækkun landleiða í Bretlandi fyrir FARICE-1 sæstrenginn.

Eignarhaldsfélagið Farice ehf, sem er félag íslensku hluthafanna í Farice hf, leggur DANICE- sæstrenginn. Áætlað er að strengurinn verði tekinn í notkun í janúar 2009 og frá þeim tíma verða því tvær jafngildar leiðir fyrir öll fjarskipti Íslendinga til annarra landa.