Áætlað er að hefja lagningu Fitjalínu 2, 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs frá Fitjum til Helguvíkur í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Framkvæmdir við slóðagerð, þveranir og skurðgröft hófust í byrjun maí og í dag og í gær voru 18 risakefli með jarðstrengsefni, sem hvert vegur um 17 tonn, flutt með stórum trukkum frá Sundahöfn út á Reykjanes.

ÍSTAK sér um lagningu jarðstrengsins fyrir Landsnet og er stefnt á að framkvæmdum verði lokið í september. Strengurinn er um 8,5 kílómetra langur og liggur að mestu meðfram Reykjanesbraut.

Í Helguvík er nýtt tengivirki Landsnets, Stakkur, í byggingu á vegum Íslenskra aðalverktaka. Verkinu miðar vel en framkvæmdir hófust í apríl og á þeim að ljúka fyrir áramót.

Undirbúningur að byggingu tengivirkisins í Helguvík og lagningu jarðstrengsins hófst hjá Landsneti haustið 2014, í framhaldi af samningi um flutning raforku til kísilvers United Silicon. Á tengingin að vera tilbúin 1. febrúar 2016.