Jón Ólafsson er þess fullviss að vatnsvörumerkið Icelandic Glacial fari að bera ávöxt eftir sextán ára uppbyggingarstarf. „Það hefur ýmislegt gengið á. Oft hefur þetta verið mjög erfitt en þetta er komið núna. Næsta ár er síðasta árið sem við verðum með neikvæðan EBITDA rekstrarhagnað,“ segir Jón. Frá árinu 2004 hefur hann byggt upp vörumerkið Icelandic Glacial með syni sínum Kristjáni Ólafssyni. Fyrirtækið sem heldur utan um reksturinn heitir Icelandic Water Holdings og rekur átöppunarverksmiðju á Hlíðarenda í Ölfusi, skammt frá Þorlákshöfn.

Jón sér fram á að fyrirtækið verði selt á næstu árum með góðum hagnaði fyrir þá fjárfesta sem lagt hafa honum til fé í verkefnið. En það hefur kostað mikið afl og átök að koma félaginu á þennan stað. „Það hefur ekki verið auðvelt að sækja allan þennan pening til fjárfesta á þeim tímum sem við höfum farið í gegnum,“ segir Jón og bendir á að hann hafi lagt allt sitt sparifé í verkefnið.

Jón hefur áður sagt frá því að líklega hefðu feðgarnir ekki farið út í verkefnið ef þeir vissu þá sem þeir vita í dag. Í upphafi töldu þeir sig geta byggt upp félagið fyrir um 8 til 12 milljónir dollara, á annan milljarð króna, en í dag er búið að leggja hátt í 200 milljónir dollara í reksturinn, eða það sem nálgast 30 milljarða króna.

Ekki hlotið tiltrú á Íslandi

Stuðningurinn og trú á verkefninu hér á landi hafi verið lítil þrátt fyrir að Icelandic Glacial sé líklega það íslenska vörumerki sem eigi mesta möguleika á alþjóðavísu. „Við höfum ekki fengið tiltrú á Íslandi á það sem við höfum verið að gera. Bankarnir hafa ekki haft trú á því sem ég er að gera. Íslendingar hafa ekki haft mikla trú á því. Kannski höfum við ekki skilning á hvaða virði er í vatni,“ segir Jón. Samkeppnin er hörð enda hafa þeir verið að keppa við stærstu drykkjarframleiðendur heims.

Megnið af því fé sem félaginu hefur verið lagt til hefur farið í að kynna vöruna og vörumerkið fremur en að byggja upp framleiðslugetu. „Þetta er það sem kostar að byggja upp vörumerki. Í þessum bransa ertu ekki endilega að hugsa um rekstrarhagnað ef þú hefur fjármagnið til þess heldur er áherslan á að byggja upp vörumerkið og að salan aukist sem mest.“

Söluvöxtur þó allt sé lokað

Árið 2020 hefur auðvitað verið óvenjulegt. „Ég er yfirleitt í flugvél einu sinni til þrisvar í viku en ég hef varla séð flugvél á þessu ári. Ég hef nær aldrei verið lengur en þrjár vikur á sama stað síðastliðin fjörutíu ár en hef bara verið á þremur stöðum frá því faraldurinn hófst.“ Jón var í fimm mánuði samfleytt á Íslandi eftir að faraldurinn fór á flug og hefur ekki stoppað svo lengi á Íslandi um langt árabil.

„Mér finnst ég búinn að vera í löngu sumarfríi í ár. Það er líka vegna þess að reksturinn gengur vel. Ef það væru erfiðleikar í rekstrinum væri ég alveg ómögulegur,“ segir Jón.

Hann bendir á að sala á Icelandic Glacial hafi aukist á þessu ári þrátt fyrir að helmingurinn af sölustöðunum hafi staðið auðir frá því faraldurinn hófst, til að mynda hótel, veitingastaðir og flugvellir. Salan á þessu ári hafi verið á milli 26 og 27 milljónir dollara sem er mesta sala félagsins frá upphafi, jafnvirði um 3,3-3,5 milljarða íslenskra króna en salan var 24,5 milljónir dollara árið 2019, eða um 3,1 milljarður króna. Ísland er það land þar sem salan hefur dregist mest saman enda hafa ferðamenn haldið uppi sölu á vatninu hér á landi. Eftir að þeir hættu að skila sér til landsins eru fáir sem kaupa vatn í flöskum.

Vöxturinn er sérstaklega mikill í gegnum netverslun Amazon. Á þessu ári mun þriðjungur af vatni Icelandic Glacial vera í gegnum Amazon en í upphafi ársins var búist við að hlutfallið yrði í kringum 10%. „Það var eitthvað sem við áttum alls ekki von á,“ segir Jón. Um 80% af tekjum félagsins koma í gegnum sölu vatns í Bandaríkjunum en Jón segir félagið vera með fjórða mest selda innflutta vatnið í hæsta flokki þar í landi, svokallað „premium“ vatn.

Ekkert íslenskt vörumerki með eins mikla möguleika

Þegar faraldrinum sleppir og hótelin, veitingastaðirnir og flugvellirnir fyllast á ný sér Jón fyrir sér að salan taki verulega við sér og fyrirtækið fari að skila viðvarandi hagnaði. Takist það geti sala á fyrirtækinu skilað hluthöfum miklum verðmætum þegar það verður selt, á næstu árum. „Þetta var gert til þess að byggja upp og koma í hendur á stærra fyrirtæki.“

Þegar sambærileg fyrirtæki eru seld segir Jón yfirleitt horft á sölutölur fremur en hagnað. Algengt sé að stórfyrirtæki á borð við Coca Cola og PepsiCo kaupi álíka félög. Innan slíkra stórfyrirtækja hverfi mikið af kostnaðarliðum þar sem þau geti gert ýmislegt með ódýrari hætti en smærri framleiðendur. Því segir Jón algengt að notast sé við margfaldara á borð við fimm til tíföld árssala þegar reksturinn er verðmetinn.

Jón telur ekkert íslenskt vörumerki vera í viðlíka stöðu og Icelandic Glacial. „Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði stærsta vörumerki Íslands frá upphafi. Við erum með óendanlegan lager og óendanlega möguleika á markaði þar sem við getum selt vöruna í öllum löndum heimsins. Í dag er Icelandair líklega stærsta íslenska vörumerkið en það flýgur bara til ákveðið margra landa. Við ætlum okkur að selja vatn til yfir 100 landa þegar uppi er staðið.“

Ítarlegt viðtal við Jón Ólafssson er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .