Eigið fé Íbúðalánasjóðs í árslok 2009 nam 10 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 3%. Þetta segir í Fjármálatíðindum, nýútkomnu riti Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn telur að hlutfall sjóðsins sé of lágt, enda langtímamarkmið hans að eiginfjárhlutfallið sé yfir 5%. Búast má við aukningu á virðisrýrnun útlána næstu misserin og telur Seðlabankinn því líklegt að leggja þurfi sjóðnum til aukið eigið fé á næstunni.

Vanskil lántakenda Íbúðalánasjóðs jukust á milli ára, en um 5% lántakenda voru með einn eða fleiri gjalddaga í vanskilum í árslok 2009. Einstaklingar skipa langstærsta hluta lántakenda sjóðsins og eru með yfir 80% af útlánum. Um 50% lántakenda nýttu sér heimild til greiðslu íbúðalána miðað við greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs á árinu 2009.

Íbúðalánasjóður er stærsti útgefandi verðbréfa á Íslandi utan viðskiptabanka og sparisjóða. Verðbréfaútgáfa hans nam í árslok um 776 milljarða króna og þar af var útgáfa íbúðabréfa um 703 milljarðar. Heildarverðbréfaútgáfa lánafyrirtækja annarra en viðskiptabanka og sparisjóða var 824 milljarðar króna.