Samtök iðnaðarins og verktakar hafa gagnrýnt hátt lóðaverð. Telja samtökin að kerfinu sé innbyggður hvati fyrir verktaka til að byggja stórar og dýrar íbúðir og vísa þar ekki bara til lóðaverðs heldur einnig reglugerða og hás fjármagnskostnaðar fyrir verktaka.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að hugmyndir Samtaka iðnaðarins um að lóðaverð stýri íbúðaverði séu allt að því marxískar.

„Hugmyndir um að lóðaverð sé leiðandi í verðmyndun fasteigna eru svolítið gamaldags," segir Dagur. „Adam Smith sýndi fram á að verðið myndast á markaði þannig að lóðaverð er ekki leiðandi í fasteignaverði heldur ræður fasteignaverð lóðaverði. Lóðaverð fer mjög mikið eftir staðsetningu og er í raun afgangsstærð, eða fasteignaverð að frádregnum byggingarkostnaði og staðsetningu lóðar. Capacent hefur tekið saman þróun fasteignaverðs, lóðaverðs og byggingarkostnaðar, sem staðfestir þetta þannig að ég skil ekki alveg umræðuna. Það eru engin dæmi um það, eða fá, að verktakar á frjálsum markaði, sem fá ódýra lóð, reyni ekki samt sem áður að fá eins mikið fyrir fasteignirnar og mögulegt er þegar kemur að því að selja þær."

Reynt að fá hátt verð

Sveitarfélögin hafa hvað eftir annað séð að á frjálsum markaði skilar lágt lóðarverð sér ekki í lágu fasteignaverði. Það er bara reynt að fá eins hátt verð og mögulegt er og kannski er það bara eðlilegt. Umræðan um þessi mál er því svolítið skrítin finnst mér."
Dagur segir að undantekningin frá þessu sé þegar lóðum sé úthlutað til félaga sem ekki séu rekin í hagnaðarskyni, eins og til dæmis stúdentafélaga eða byggingarsamvinnufélaga.

„Þetta eru aðilar sem selja eða leigja á kostnaðarverði en ekki hæsta mögulega verði. Í þessum tilvikum höfum við lagt fram lóðir sem miða bara við gatnagerðargjöld og teljum okkur sjá það skila sér í endanlegum verðum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .