*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 14. febrúar 2016 16:05

Lágt olíuverð hefur ekki bein áhrif

Framkvæmdastjóri Toyota á Íslandi segir skýrara samhengi á milli hagvaxtar og bílasölu heldur en olíuverðs.

Kári Finnsson
Haraldur Guðjónsson

Margt hefur gerst í rekstri Toyota á Íslandi frá því að Úlfar Steindórsson tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2005. Efnahagshrunið var öllum söluaðilum bifreiða erfitt en nú eru bjartir tímar framundan í rekstrinum. Toyota hefur um margra ára skeið verið vinsælasta bíltegundin á Íslandi en Úlfar segir markaðshlutdeildina hér á landi háa í samanburði við nágrannalöndin. 

Olíuverð hefur lækkað umtalsvert á síðustu misserum sem hefur haft þónokkur áhrif til lækkunar á bensínverði hér á landi. Spurður að því hvernig áhrif lækkunin hefur haft á bílasölu segir Úlfar að það sé örugglega eitthvert samhengi þar á milli en ekki jafn skýrt og ætla mætti í fyrstu. „Það er miklu minna samhengi þarna á milli en á milli hagvaxtar og bílasölu, þar sem fylgnin er mjög sterk,“ segir hann.

„Bílasala fylgir miklu frekar hagvexti heldur en einstökum þáttum. Auðvitað hefur olíuverð samt áhrif á hagvöxtinn. Líklega er lágt olíuverð í Noregi að hafa þau áhrif að þar seljast færri bílar. Þeim hefði átt að fjölga ef þetta væri samhengið sem þú varst að velta fyrir þér. Fólk keyrði minna eftir hrun og olíuverð hafði klárlega áhrif þar. Krónan féll um einhver 50% og olíuverð tvöfaldaðist við það eitt og sér, plús það að það hækkaði meira erlendis. Við höfum ekki fengið það hins vegar á tilfinninguna að það sé beint samhengi þarna á milli. Kannski veldur lækkandi olíuverð því að fólk spáir minna í því hvort bíllinn sé umhverfisvænn eða ekki. Ég held að við séum meira að velta því fyrir okkur hvað hlutirnir kosta heldur en hvort þeir séu að menga.“

Nánar er rætt við Úlfar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.