Lækkun olíuverðs getur haft þau áhrif að framboð olíu verði ekki nægilegt í náinni framtíð samkvæmt Abdulaziz bin Salman orkumálaráðherra Sádí-Arabíu. Salman sagði þetta á fundi OPEC ríkja sem fer núna fram í Doha. Bloomberg greinir frá.

Salman bendir á að fjárfestingar olíufyrirtækja hafi verið skornar niður um 200 milljarða Bandaríkjadala og muni lækka um 3-8% í viðbót á næsta ári. Þetta verður þá í fyrsta skipti síðan um miðjan 9. áratug síðustu aldar sem fjárfestingar í greininni lækka tvö ár í röð.

Salman segir að þetta óvenju lága olíuverð sé jafn óeðlilegt og hið óvenju háa olíuverð sem var fyrir, en núverandi verð sé ósjálfbært þar sem það muni hafi í för með sér mikla lækkun á fjárfestingu í olíuiðnaði.

Oliuverð hefur lækkað um 42% á síðastliðnu ári. Talið er að heildareftirspurn eftir olíu verði 94 milljónir tunna á dag á þessu ári, en það er 1,5% aukning frá fyrra ári. Þrátt fyrir eftirspurnaraukningu þá er umframframleiðsla í heiminum um það bil 2 milljónir tunna á hverju degi.