OPEC stefnir á að halda óformlegan fund í Alsýr í næsta mánuði, en þessi samtök olíuútflutningsríkja telja lágt verð á heimsmarkaðsverði olíu núna vera tímabundið ástand.

Væntingar um hærra verð á seinni hluta ársins

„Væntingar um hærra olíuverð á þriðja og fjórða ársfjórðungi ársins 2016, í bland við minna framboð, leiðir til þess að niðurstöður greinenda er að núverandi verðlækkun á mörkuðum sé einungis tímabundin og olíuverð muni fara hækkandi á seinni hluta ársins 2016,“ segir Mohammed Al Sada, orkumálaráðherra Qatar og núverandi forseti samtakanna, í yfirlýsingu á vef samtakanna.

Engin niðurstaða um framleiðsluhámark

Olíuverð lækkaði töluvert í síðustu viku, en olíuverð hefur nálega tvöfaldast síðan það náði 12 ára lágmarki sínu í febrúarmánuði síðastliðnum.

Lækkunin eykur þrýsting á fjárhag margra aðildarríkja sem hafa ekki náð að halda ríkisfjármálunum í jafnvægi. Orkumálaráðherrar OPEC landanna funduðu síðast í júní en þar komust þeir ekki að niðurstöðu um að setja á framleiðsluhámark.

Mesta hækkunin í tvær vikur

Olíuverð hefur hækkað aðeins í kjölfarið og er það nú það hæsta sem það hefur verið í tvær vikur. West Texas hráolían selst nú á 43 Bandaríkjadali tunnan, en á tímabili fór hún niður í 42,36 dali en þá hafði verðið lækkað um 14% í júlímánuði.

Á fundi orkumálaráðherra OPEC landanna og annarra olíuframleiðsluríkja tókst ekki að ná samkomulagi, meðal annars vegna krafna Sádi Arabíu að Íran yrði með í framleiðsluhámarkinu.

Landið hafði hafnað því að sæta framleiðslutakmörkunum á meðan þeir kæmu henni í gagnið á ný í kjölfar þess að viðskiptaþvingunum á landið var aflétt.

Framleiðsla um 80% af því sem áður var

Er talið að við árslok nái Íran að framleiða svipað mikið og áður en refsingunum var komið á, en að sama skapi eykst útflutningur Sádi Arabíu meðan orkunýting í landinu minnkar yfir sumarmánuðina, segir Robin Mills, hjá ráðgjafarfyrirtækinu Qamar Energy.

Nú dælir Íran upp um 3,8 milljón tunnum af hráolíu á dag, og flytur út um 2 milljónir þeirra, segir Mohsen Ghamsari, forstöðumaður alþjóðamála hjá íranska ríkisolíufyrirtækinu í viðtali í síðasta mánuði. Segir hann að þeir hafi náð um 80% af þeirri markaðshlutdeild sem þeir höfðu fyrir viðskiptahindranirnar.