Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi að hækka lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða úr 10% í 12% sem verði komið að fullu til framkvæmda um næstu áramót, eins og almennt hefur verið samið um í kjarasamningum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að kveðið verði á um í bráðabirgðaákvæði við lögin að á meðan núgildandi kjarasamningar eru enn í gildi, sé heimilt að miða lágmarksiðgjaldið við 10%, sé um það kveðið í viðkomandi kjarasamningi. Eftir það beri að miða lágmarksiðgjald við 12%. Er þetta lagt til með það fyrir augum að verði frumvarpið að lögum hafi það ekki bein áhrif á þá kjarasamninga sem í gildi eru við gildistöku frumvarpsins eins og bent er á í frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða.